Kristín Jónsdóttir
Kristín er kennslukona af lífi og sál og hefur unnið við kennslu og stjórnun á leik- grunn- og háskólastigi. Hún er dósent á Menntavísindasviði Háskóla Íslands og deildarforseti Deildar kennslu- og menntunarfræði. Kristín kennir almenna kennslufræði og rannsóknir hennar snúast mest um tengsl heimila og skóla, skólaþróun og kennarastarfið. Netfangið er kjons@hi.is
„Tengjumst – kennarar og foreldrar barna af erlendum uppruna er verkefni sem sameinar vel áherslur mínar í rannsóknum og kennslu. Það er þörf fyrir það í skólasamfélaginu og í því felst skapandi vinna í góðum hópi.“
Tengjumst - verkefnið
Á þessum vef er miðlað vönduðu fræðsluefni fyrir foreldra grunnskólabarna af erlendum uppruna og er markmiðið að efla foreldra í að styðja við menntun barna sinna. Vefurinn á líka erindi til grunnskólakennara, stjórnenda og fleira fagaðila sem vilja geta vísað foreldrum á gott fræðsluefni um tengsl heimila og skóla.
Birt eru fjögur meistaraverkefni nemenda í kennara- og stjórnendanámi skólaárið 2020-21 við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Þau unnu fjögur myndbönd, sem hvert um sig er framleitt á arabísku, íslensku, pólsku og spænsku, ásamt tilheyrandi fræðsluefni. Verkefnin eru Samskipti heimila og grunnskóla á Íslandi eftir Valdimar Unnar Jóhannsson, Samstarf heimila og skóla um nám og góða líðan grunnskólabarna eftir Dagmar Ólafsdóttur og Þátttaka foreldra í íslenskunámi og lestrarþjálfun barna sinna eftir Stefaníu Láru Ólafsdóttur og Réttindi og skyldur foreldra vegna skólagöngu barna sinna eftir Láru Bergljótu Jónsdóttur.
Myndböndin voru unnin í samstarfi við kvikmyndagerðarmenn af Kennslusviði Háskóla Íslands og með þátttöku þýðenda, nemenda og starfsfólks Bláskógaskóla og Menntavísindasviðs, vina og vandamanna, sem öll fá okkar bestu þakkir fyrir. Leiðbeinandi við verkefnin var Kristín Jónsdóttir kennslukona og dósent við Deild kennslu- og menntunarfræði. Sérfræðingar við verkefni voru Hanna Ragnarsdóttir prófessor við sömu deild og Páll Ásgeir Torfason deildarstjóri rafrænna kennsluhátta á Kennslusviði Háskóla Íslands. Greinargerðir þar sem nánar er fjallað um viðfangsefni meistaranemanna og vinnuferlið má finna á skemman.is
Tengjumst-verkefnið hlaut styrk við fyrstu úthlutun úr sjóði Háskóla Íslands sem ætlaður er til að efla virka þátttöku vísindamanna í samfélaginu í krafti rannsókna og sérþekkingar.
Ábyrgð á Tengjumst-verkefninu og vefnum ber Kristín Jónsdóttir kjons@hi.is
Hönnun á vef og uppsetningu annaðist Elías Nökkvi Gíslason eliasnokkvi@gmail.com