Samskipti heimila og grunnskóla á Íslandi

Samskipti heimila og grunnskóla á Íslandi

Valdimar Unnar Jóhannsson

Hefðir og venjur í skólum eru misjafnar á milli landa og menningarheima en góð samskipti eru alls staðar mikilvæg

Arabíska - عربى

nam-og-lidan-3

Íslenska

nam-og-lidan-3

Pólska - Polski

nam-og-lidan-3

Spænska - Español

nam-og-lidan-3

Valdimar Unnar Jóhannsson

Unnar starfar í grunnskóla í Reykjavík og sem knattspyrnuþjálfari. Hann lauk grunnnámi í grunnskólakennarafræðum frá Háskóla Íslands árið 2013 og sérhæfði sig í kennslu samfélagsgreina. Hann lauk meistaranámi í júní 2021.

„Vinnan við þetta meistaraverkefni jók hæfni mína til að vinna í hópi. Það var ótrúlegt hvað samvinnan gaf mikið í vinnuferlinu og mæli ég hiklaust með þessari aðferð til að vinna lokaverkefni. Skemmtilegt var að fá að kynnast svo skapandi leið. Samvinnan er undirstöðuatriði í allri kennslu.“

Samskipti og virðing

Regluleg og góð upplýsingagjöf ásamt virkri þátttöku foreldra í námi barna sinna hefur jákvæð áhrif á námsárangur og líðan þeirra. Rannsakendur hafa einnig bent á að þátttaka foreldra í skólastarfinu bætir vellíðan og námsárangur barna. Þá gera kenningar um foreldrasamstarf ráð fyrir því að bæði námsárangur og hegðun barna verði betri með aukinni þátttöku foreldra.

Það er mikilvægt að kennarar eigi í góðum samskiptum við foreldra. Ef foreldrarnir eru ánægðir með kennarann þá skilar það sér til barnanna, þeir verða ánægðari og skólastarfið verður ánægjulegra fyrir alla.

Virðing og traust er undirstaða samvinnu að mati kennara og foreldra, kennarar sem lögðu mikla alúð og vinnu í samstarf sitt við foreldra og lögðu sig fram um að ná góðu sambandi við forráðamenn, t.d. með því að sýna þeim virðingu, hlusta á þá, deila með þeim áhyggjum, leiðbeina og hvetja lýstu allir jákvæðari samskiptum og einhug í samvinnu.

Foreldraviðtöl

Foreldraviðtöl eru mikilvægur vettvangur til að byggja upp samstarf. Algengast er í grunnskólum að það séu tvö foreldraviðtöl á ári, eitt á haustönn og annað á vorönn, og oftast eru nemendur viðstaddir. Utan þeirra fara samskipti foreldra og kennara að mestu fram í gegnum tölvupóst eða önnur rafræn kerfi, t.d. Mentor. Hérlendis eru þrjú mismunandi form foreldraviðtala vel þekkt. Þau má kalla hefðbundin viðtöl, nemendastýrð viðtöl og heimsóknarviðtöl. Í hefðbundnum foreldraviðtölum stýrir kennari oftast því sem talað er um og algengast er að viðtölin taki 15-20 mínútur. Í nemendastýrðum viðtölum eru nemendur með ákveðið hlutverk og kynna verkefni sín eða segja foreldrum sínum frá. Í heimsóknarviðtölum er um að ræða heimsókn þar sem kennari fer í heimahús til nemenda og foreldra þar sem kennari ræðir um skólaárið og skipulagið bekkjarins á heimavelli þeirra.

Misjafnt er hvað viðtöl kennara við foreldra eru kölluð í skólum landsins en orðin foreldraviðtöl, foreldrasamráð og samráðsdagur koma oftast fyrir. Mikilvægt er að skólar veiti reglulega upplýsingar um skólastarfið og eru foreldraviðtöl góður vettvangur til þess. Foreldraviðtöl fela í sér mikilvæg samskipti en líka samstarf um nám nemenda ef vel tekst til þó mörk þessara hugtaka séu stundum óljós.

Foreldrafélög í grunnskólum og tómstundir ungmenna

Í öllum grunnskólum á að vera starfandi foreldrafélag og er skólastjóri sá sem er ábyrgur fyrir stofnun foreldrafélagsins. Hlutverk foreldrafélagsins er m.a að styðja við skólastarfið, efla tengsl heimilis og skóla og að hvetja til virkrar þátttöku foreldra í skólastarfinu.

Tómstundir eru mikilvægur þáttur í forvörnum og sporna gegn áhættusamri hegðun ungmenna. Ef frítíma ungmenna er varið í eitthvað jákvætt eins og til dæmi þátttöku í skipulögðu starfi aukast líkur á því að unglingar finni sér góðan félagsskap og vinahóp.

Krækjur á gagnlega vefi

Greinargerð um verkefnið er á skemman.is